Að glíma við ófrjósemi getur haft margvísleg áhrif. Konur sem glíma við ófrjósemi upplifa oft andlega vanlíðan á borð við kvíða, streitu, þunglyndi og lágt sjálfsmat. Rannsóknir hafa sýnt að hugræn atferlismeðferð (HAM) geti dregið úr sálfræðilegum afleiðingum þess að glíma við ófrjósemi. Nýlega hefur komið í ljós að HAM sem veitt er á internetinu geti í sumum tilfellum verið jafn áhrifarík og hefðbundin sálfræðimeðferð.
Sigurbirna Hafliðadóttir, meistaranemi í klínískri sálfræði, ásamt Fjólu Dögg Helgadóttur, doktor í klínískri sálfræði munu rannsaka áhrif meðferðar sem veitt er á netinu á einkenni kvíða, streitu og þunglyndis hjá konum sem glíma við ófrjósemi. Meðferðin er hugræn atferlismeðferð sem felur í sér einstaklingsmiðaða meðferðaráætlun sem inniheldur fræðslu og æfingar þar sem þar sem tengsl milli hugsunar, hegðunar og líðan eru skoðuð. Markmiðið er að bæta lífsgæði þeirra sem eru að kljást við frjósemisvanda.
Allir þátttakendur fá gjaldfrjálsan aðgang að forritinu Overcome Fertility Stress í 3 mánuði. Þátttaka í rannsóknin felur í sér að svara spurningalistum, fara í gegnum netmeðferðina og svara aftur spurningalistum að meðferð lokinni.
Hægt er að smella á þennan hlekk til að taka þátt í rannsókninni.
Fyrir frekari upplýsingar má hafa samband á sigurbirnah19@ru.is.